146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum hennar ræðu. Þetta er búið að vera um margt mjög áhugaverð og góð umræða um fjármálastefnuna í dag. Hv. þingmaður tók þann pól í hæðina að reyna að koma einhverjum umræðum af stað um að það sé misræmi í afstöðu til sölu eða ekki sölu á bönkum. Því vil ég spyrja þingmanninn í fyrsta lagi hvort hún telji ekki skuldsetningu ríkissjóðs vera enn þá mjög mikla og hvort það sé þá ekki mikilvægt að við ráðumst á hana. Og í framhaldi af því hvert sé viðhorf hennar til þess mikla fjármagnskostnaðar sem við berum. Ég held að ekki sé hægt að deila um að þegar við eigum fallvalta eign eins og viðskiptabanka sem bókfærðir eru á 450 milljarða geti það skipt mjög miklu máli til að greiða niður skuldir og lækka fjármagnskostnaðinn til þess að komast áfram með okkar samfélag eins og er kjarninn í nefndaráliti meiri hlutans.