146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum þetta svar. Ég held að alla vega okkur sem í dag höfum verið að fást við umræðu um m.a. HB Granda og þá stöðu sem þar er komin upp sé ekki endilega efst í huga viðbótarskattlagning á sjávarútveginn. Ég ætla ekki að fara út í það.

Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að hér væri umræða um sérstaka eða ósérstaka sölu á ríkisbönkum. Ég verð nú bara að játa að ég er pínulítið ruglaður í afstöðu þingmannsins til sölu á bönkum. Það skýrðist svolítið í svörum hennar til hæstv. fjármálaráðherra áðan. En ég vil aðeins hnykkja á því að í nefndaráliti meiri hlutans fjöllum við um bankana og framtíðarskipulag þeirra og þau miklu verðmæti sem þar eru inni, bæði sem eigið fé og þær miklu eignir sem ríkissjóður hefur þar yfirtekið og á núna og getur mögulega lækkað skuldir sínar með því að losa um þær eignir. Mér finnst til fyrirmyndar frumkvæði efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis þar sem hún hefur farið að ræða um bankamál og bankasölu. Þess vegna vil ég enda á að spyrja hv. þingmann um það (Forseti hringir.) hvert sé raunverulega viðhorf hennar til þess að selja banka.