146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:55]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessar spurningar. Nú tók ég ekki þátt í þessum umræðum hér á síðasta kjörtímabili og á því erfitt með að svara nægilega skýrt. Eins og ég skil þessi nýju lög um opinber fjármál þá eru þau sett fram til að koma meiri festu inn í fjárlagagerðina. Ég get ekki séð að sú festa hafi gert annað í bili en að flækja vinnuna fyrir Alþingi. Alþingi fer með fjárveitingavaldið. Við höfum fengið minnisblöð um verklag þar sem fram kemur að nefndir sem taka við frumvörpum eða þingsályktunum, eða hverju sem kann að vera, séu það bundnar af fjármálastefnu og fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að þær geti ekki lagt fram tillögur um auknar fjárveitingar öðruvísi en að leggja til lækkun eða aukna tekjuöflun á móti. Það getur vel verið að þetta hafi verið öðruvísi áður og fyrr en ég sé ekki betur en að þetta geri alla þessa vinnu erfiða. Ég veit ekki hvort þetta eru yfir höfuð góð vinnubrögð. Ég vil taka undir þá gagnrýni sem hefur komið fram hjá ýmsum hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á þessa þrengingu, þessa yfirfærslu á fjárveitingavald til framkvæmdarvaldsins, en hef svo sem ekki lausnir á því hvernig væri hægt að snúa klukkunni að einhverju leyti til baka. En ég endurtek: Það þarf auðvitað meiri festu í gerð fjárlaga miðað við það sem áður þekktist. (Forseti hringir.) Það að minnsta kosti segir mín reynsla sem samfélagsþegn mér.