146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[21:58]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er alveg rétt skilið hjá hv. þingmanni að þetta er gert til að mynda ákveðna festu, svo að við vitum að það sé ákveðinn stöðugleiki. Ég tel margt í opinberum fjármálum vera til bóta. Það sem vantar að mínu mati, og mig langar að vita hvort hv. þingmaður tekur undir það, er það að allt stuðningsnetið í kringum þá fjárlagavinnu sem við þurfum að hafa aðkomu að er einfaldlega ekki til staðar. Það kemur fram í gagnrýni frá fjármálaráði, og ég ætla að taka undir það, með leyfi forseta:

„Til að fjármálaráð geti sinnt hlutverki sínu eins og lögin kveða á um er nauðsynlegt að það hafi góðan aðgang, ekki einungis að forsendum og niðurstöðum fjármálastefnu á hverjum tíma, heldur einnig að forsendum og ferli stefnumörkunarinnar.“

Það virðist vera ákveðið ákall um meira aðgengi að tölulegum upplýsingum, hagspárnar eru gerðar á mjög einsleitan hátt:

„Hagspáin sem liggur stefnunni til grundvallar tekur ekki nægilegt tillit til áhrifa þeirrar hagstjórnar sem af stefnunni hlýst.“

Er þetta ekki mjög alvarleg og veigamikil gagnrýni á þessa fjármálastefnu?

Þá spyr maður sig, og ég vil spyrja hv. þingmann að því, hvort ekki sé eðlilegt að þessi atriði verði tekin til gaumgæfilegrar athugunar áður en stefnan er samþykkt. Og hvort ekki sé þá tækifæri núna, þar sem þingkosningar voru tiltölulega seint á árinu en ekki að vori eins og vanalega, til að við fáum að sjá samspil fjármálastefnunnar og fjármálaáætlunar til að byrja með. Þetta er fimm ára áætlun. Þetta bindur þingið í fimm ár. Mér finnst við taka þessa umræðu allt of léttilega. Mig langar að vita hvað hv. þingmanni finnst um það.