146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[22:00]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég tek undir þá gagnrýni. Ég held að stjórnarandstaðan hafi flutt þannig mál hér að augljóst ætti að vera að nokkur samhljómur er í gagnrýni hennar á bæði plaggið og að sumu leyti aðferðafræðina. Fjármálaráð varar við. Ég nefndi rauð flögg í minni ræðu og spurði hvers virði þau væru. Þau virðast ekki hafa mikil áhrif á þá sem standa að baki þessu plaggi. Þetta hagsveifluviðmið, sem kannski er stóri akkillesarhællinn í þessari stefnu, kallar á að allar viðgerðir í samfélaginu verði sjálfvirkar. Það þarf enga hagstjórn í raun og veru. Ef það er plús þá er plús og þegar það er mínus þá er það mínus. Þetta er ekki flókin hagstjórn. Ég held að í það heila tekið verði mjög erfitt að reka íslenskt samfélag án þess að þarna komi til bæði annars konar hugsun, annars konar hugmyndafræði og miklu vandaðri og hægari vinnubrögð en hér hafa komið fram. Það er það sem ég get sagt um þetta án þess að fara langt út fyrir mína þekkingu.