146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[22:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Er þetta í lagi? spyr þingmaðurinn. Nei, auðvitað ekki. Auðvitað er ekki í lagi að hér á þingi sé látið eins og við séum múlbundin, við séum niðurnjörvuð af lögum um opinber fjármál, alveg eins og var í kringum umræðuna um fjárlög fyrir jól. Það er ekki hægt að gera þá kröfu til þingsins þegar framkvæmdarvaldið stenst ekki sömu lög. Maður myndi halda að eitt yrði yfir alla að ganga og að á meðan á þessum innleiðingarfasa standi, ef við eigum að vera að gefa framkvæmdarvaldinu endalausa sénsa með að skila hér hálfköruðu verki, sé ekki hægt að láta eins og við séum að taka við einhverju guðspjalli sem eigi bara að ljósrita og senda áfram umorðalaust.