146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[22:35]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að vekja á því athygli að hæstv. ráðherra er að taka þátt í umræðunum; mér finnst það æðislegt. Aðeins að síðustu orðum hans, ég vil kannski halda áfram með þá umræðu, en segja má að þingið sé með ákveðinn athyglisbrest. Við hoppum úr einu máli í annað án þess að ná að klára síðustu krísu. Nú erum við að tala um fjármálastefnu til fimm ára. Upplagið var að við myndum klára þetta í kvöld, fjármálastefnu næstu fimm ára, klára það á einu kvöldi, í einni umræðu. Stefnan á að vera undir fjármálaáætlun á hverju ári næstu fimm árin og hún á að útskýra áherslur í henni. Ef hún gerir það ekki, eins götótt og hún er, finnum við ekki ástæðu fyrir því að áhersla er lögð á eitt málasvið umfram annað í stefnunni. Þar er á ferð ákveðið vandamál varðandi það eftirlit sem Alþingi á síðan að sinna. Þar kristallast aðstöðumunur þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Framkvæmdarvaldið hefur starfsfólkið og fagfólkið til að útskýra af hverju 1,6% eru í afgang en ekki 1,9% eða 1,75%, eða eitthvað svoleiðis, sem við þingmenn gætum komið upp með á staðnum. Við höfum ekki aðstöðuna til að leita í þau módel sem við þurfum til að meta stefnuna.

Ég spyr hv. þingmann sem er nefndarmaður í allsherjar- og menntamálanefnd — eins og ég spurði hv. þm. Loga Einarsson — þar sem mörg stór svið koma til með að verða til umfjöllunar í fjármálaáætluninni: Hvernig hjálpar fjármálastefnan þingmanninum að meta þá vinnu sem vinna þarf varðandi fjármálaáætlunina sem kemur í næstu viku?