146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:05]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í stuttu máli sagt: Nei, varðandi samgöngumál. Ég finn þeim ekki stað. Var ég búinn að segja að ég er ekki stærðfræðingur?

Ég hef í það minnsta ekki heyrt það. Þegar maður ræðir við hæstv. ráðherra samgöngumála um samgöngumál næstu ára er lausn hans sú að skoða aðkomu einkaaðila að fjármögnun, skoða skattahækkun í formi vegtolla sem nýtalsstefnan kallar ekki skatta en eru ekkert annað en það.

Já, það verður áhugavert að sjá hvað verður að finna í fjármálaáætluninni sem brátt verður lögð fram, en miðað við orð hæstv. samgönguráðherra um vinnuna við skoðun á öðrum leiðum til tekjuöflunar verð ég að segja að ég er ekki bjartsýnn. En það kemur nú í ljós fljótlega hvernig það lítur út.

Hvað varðar tímann sem við höfum haft til að skoða þetta mál og hvenær ætti að leggja slíkt mál fram er ég algerlega sammála hv. þingmanni. Aðstæður eru sérstakar. Fyrir mér er niðurstaðan mun mikilvægari en ferlið því að við erum að setja okkur þann ramma sem vísað verður til um leið og við förum að ræða fjármálaáætlunina. Þegar við förum að takast á um fjárlögin í haust verður vísað til þessarar fjármálastefnu. Og næsta haust eða haustið þar á eftir og þar á eftir og þar á eftir. (Forseti hringir.) Það eina sem ég er ánægður með í þessari fimm ára áætlun er heitið. Ég hef nú alltaf verið hrifinn af fimm ára áætlunum.