146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:09]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki verið áður hér við afgreiðslu fjárlaga fyrir utan síðustu afgreiðslu þar sem ég var ásamt hv. þingmanni sem hefur, hygg ég, verið áður við afgreiðslu fjárlaga. Hann þekkir hana því kannski betur en ég þótt ég hafi nú fylgst með henni utan frá og jafnvel skrifað um hana. En það er alveg hárrétt, ég er alveg sammála hv. þingmanni um það. Hvað varðar það að sjá ekki hækkun til einstakra liða og ramma málaflokka þá hefur nú stundum læðst að mér sá grunur þegar ég hef skoðað þessi mál og hlustað á stjórnarliða, jafnvel hæstv. ráðherra, tala um þessi mál að ástæðan fyrir því að ekki sé að finna þessa hækkun sé sú að fara eigi aðrar leiðir til uppbyggingar. Það er nefnilega sama hvar við berum niður, nánast undantekningarlaust, alls staðar er verið að opna á aukinn einkarekstur. Einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Fjölbreytt rekstrarform, heitir það. Einkarekstur í menntakerfinu. Síðast var hér nefndur millilandaflugvöllur, var það ekki? Ég gæti sest niður og búið til ansi langan lista um þá staði og þær aðgerðir sem stjórnarliðar hafa talað um að best sé að skoða rekstrarform á, að einkaaðilar komi að því. Það er náttúrlega ein leið að vera með sveltistefnu þegar kemur að útgjöldum. En halda menn að þessir flokkar þori að fara í kosningar eftir fjögur ár án þess að hafa gert neitt í uppbyggingu? Það held ég ekki.

Hvernig á þá að fjármagna uppbygginguna? Jú, ein leið, slæm að mínu mati, er að fara til hliðar við opinberan rekstur og ná í fjármunina annars staðar, sem sagt að fara í einkarekstur, einkavæðingu.