146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:15]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég fagna því að hv. þingmaður sé sammála spurningunum en það hefði verið gaman að fá svör við þeim líka. [Hlátur í þingsal.] (KÓP: Þú spurðir svo gildishlaðið.) Já, þetta eru svolítið gildishlaðnar spurningar. En þetta snýr að því sem ég trúi að hv. þingmaður hafi verið að vísa í. Það er þessi staðlaða tækni sem er notuð í einkavæðingu, að skera fjármagnið niður alveg inn að beini, sjá til þess að hlutirnir virki ekki þannig að fólk verði reitt og segja síðan að rétt leið til að draga úr reiðinni og laga kerfið sé að ýta því í hendur annarra. Þetta er eitthvað sem við sjáum alltaf. Ég er sammála greiningu hv. þingmanns hvað það varðar.

Það sem vantar svolítið inn í umræðuna er þessi spurning hvað ætti að gera í staðinn. Ég hef lagt svipaðar spurningar fyrir aðra hv. þingmenn. Kannski er spurningin sem væri eðlilegt að fylgja eftir hér varðandi þær fjármálareglur sem eru settar fram í þessari stefnu. Þær eru þrjár. Þær eru frekar einfaldar. Það er afkomuregla, það er skuldareglan og skuldalækkunarregla. Spurningin mín er kannski bara: Hvaða aðrar reglur ættu að vera? Hvernig ættum við að horfa á hlutina öðruvísi þannig að úr yrði betri fjármálastefna sem gæti gagnast fólkinu í landinu frekar en að gagnast bara þessum örfáu sem njóta mjög mikils góðs af vaxtatekjum ríkissjóðs?