146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:17]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ja, við gætum komið upp sanngirnisreglunni, þar sem aflað er fjármuna og tekna til ríkissjóðs á sanngjarnan hátt og þjónusta veitt til íbúanna á sanngjarnan hátt. Þetta er kannski eitthvað sem við getum sest yfir í sumarbústaðarferðinni okkar. Ég hef reyndar aðgang að sumarbústað þannig að þetta er kannski ekki óraunhæfur draumur.

Hv. þingmaður kom inn á akkúrat þetta sem ég hafði nefnt í máli mínu og orðaði það ágætlega, þ.e. að svelta þannig að þjónustan verði slæm og þá sé eina svarið einkavæðing. Ég er alveg sammála því. Tökum bara samgöngumálin sem dæmi sem við höfum verið að ræða hérna. Við erum undir 40 ára meðaltali sem hlutfall af vergri landsframleiðslu sem við eyðum til samgöngumála þrátt fyrir að ríkisstjórnin gumi af því að núna hafi þetta verið aukið svo mikið. Samt er þetta undir meðaltali á öllum þessum uppbyggingarárum. Ég veit ekki hversu oft ég hlustaði á hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra standa keikan hér í pontu, einhvers staðar á blaðamannafundum, horfði á hann í sjónvarpi, las viðtöl við hann í blöðum, hlustaði á hann í útvarpi, og tala um hvað efnahagsstjórn hans hefði verið stórkostleg. Það hefði tekist svo vel að stýra ríkissjóði og þetta stæði allt saman svo vel. Engu að síður var ekki borð fyrir báru til að fara í þá nauðsynlegu innviðauppbyggingu sem augljóst var að þörf var á. Af hverju var það ekki? Ég held að hv. þingmaður hafi að einhverju leyti hitt naglann á höfuðið hvað varðar þessa heimsþekktu sveltistefnu sem gengur út á að rýra þjónustuna þannig að ákallið um einkavæðingu verði æ hærra. (Forseti hringir.) Nú er það orðið þannig að annaðhvort fáið þið vegtolla og borgið fyrir að keyra á vegunum eða þið fáið ekki vegi.