146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:41]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta nú frekar ófyndinn útúrsnúningur hjá hæstv. ráðherra. Ég er með það algjörlega á hreinu að hér er á ferðinni fjármálastefnan sem hver ríkisstjórn á að leggja fram í upphafi kjörtímabils, það kom fram í minni ræðu. Þess vegna sagði ég að við þyrftum að skipta um ríkisstjórn til þess að hún gæti aftur lagt fram nýja og betri áætlun. Síðan kemur hin árlega ríkisfjármálaáætlun fyrir 1. apríl ár hvert. Það vel kann ég lögin um opinber fjármál og hæstv. ráðherra ætti kannski að muna eftir því að hann er að tala við einn af forverum sínum sem hefur eitthvað sýslað við þessi mál. Þannig ég verð ekki sleginn niður með svona útúrsnúningum, frú forseti.

Hvernig vildi ég sjá afganginn og aðhaldið? Ég hef gagnrýnt allt síðasta kjörtímabil að ríkið sé að gera stór mistök í því að sleppa út jafn miklum tekjum og raun ber vitni. Það ættu að vera 50–70 milljarðar í viðbót inn í tekjugrunni ríkisins, inni í hinum stabíla tekjugrunni ríkisins, þá væri þetta ekkert vandamál. Þá gætum við haft bæði meiri afgang og sett í fjárfestingar og innviði án þess að nokkur slaki fælist í því gagnvart ríkisfjármálunum. (Forseti hringir.) Þetta er ósköp einfalt. Ég tel að ég hafi góð rök fyrir mínu máli, m.a. í ótal mörgum ræðum sem ég flutti um þetta mál á síðasta kjörtímabili.