146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:45]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir þessa eldræðu hv. þingmanns. Nema kannski að því leyti að ég neyðist til að spyrja: Er það satt að valdið liggi í raun hjá Alþingi? Staðreyndin er sú að með samþykkt laga um opinber fjármál var ákveðið að nú skyldi Alþingi ekki hafa beina aðkomu að ákvörðunum um það hvernig fjármagni er varið í fjárlögum, nema bara í litlum pottum, heldur frekar að láta það eftir ráðherra eða réttara sagt starfsfólki ráðuneytis að ráðstafa hlutum eftir hentisemi. Með þessu hefur féð verið tekið úr pólitíkinni. Mig langar bara að spyrja hvort þessi kerfislæga tómhyggja sé eitthvað sem við eigum að láta bjóða okkur. Það er ýmislegt sem mætti gera betur en ég vil spyrja hv. þingmann: Þurfum við ekki einmitt að endurheimta fjárlagavald Alþingis úr klóm þessarar austurrísku tómhyggju sem hefur ráðið hér um bil öllu í efnahagskerfi landsins frá samþykkt þessara laga?