146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:48]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég er algerlega sammála þessu. Þessar austurrísku hagfræðikenningar, sem sumir hv. þingmenn hafa tamið sér, ganga einmitt út frá frekar kaldlyndri kerfishyggju sem miðar að því að búa til þetta gangverk sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um í ræðu sinni. En með hvaða hætti gætum við gert þetta? Gætum við endurheimt þetta vald til Alþingis, t.d. með því að leggja til að þessi lög verði felld úr gildi? Væri kannski einhver snyrtileg leið til að ná þeim góðu áhrifum laganna fram — sem eru þó einhver — án þess að Alþingi missi þetta vald frá sér eins og það hefur gert? Við virðumst vera komin í það kerfi að treysta nafnlausum embættismönnum fyrir allri ákvarðanatöku og losa okkur við allt sem gæti hugsanlega gagnast almenningi. Mér finnst það ekkert rosalega góð nálgun við stjórn landsins. Mér finnst það afar slæmt.