146. löggjafarþing — 49. fundur,  28. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[23:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Aftur til að fyrirbyggja misskilning þá er ég enginn sérstakur kappsmaður um einhverja bankasölu. Ég dró bara upp þá mynd að það er mikill munur á annars vegar óreglulegum liðum, einskiptistekjum eins og stöðugleikaframlögum eða tímabundnum mjög háum arðgreiðslum frá bönkum, og hinu, ef ríkið gerir breytingar á eignasamsetningu sinni. Því hvaða munur í sjálfu sér er á eignarhlut í banka og góðum vegi eða flugvelli eða brú? Það eru eignir, innviðir og eignir ríkisins. Þá höfum við bara fært þær úr einu formi yfir í annað.

Ég myndi vilja hafa greinarmun á þessu gagnvart stefnunni sem hér er undir, að það skuli alltaf allt sem ríkið losar um fara í niðurgreiðslur skulda. Og þarf endilega að stefna niður fyrir 30%? Er það ekki nóg? Og ef ekki væri þetta háa vaxtastig á Íslandi væri engin ástæða til þess að ganga svona hratt fram í niðurgreiðslu skulda. Engin. Það eru vissulega rök að við erum að borga það háa vexti hér. En engri (Forseti hringir.) annarri þjóð sem byggi við hagstæðari vaxtakjör myndi detta í hug sem sérstakt forgangsverkefni að fara með opinberar skuldir sínar alla leið niður í 30% á örfáum árum. Það væri alveg fáheyrt.