146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

störf þingsins.

[15:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka tækifærið til að ræða þetta og einfalda svarið er: Já. Svo einfalt, það er ekki flóknara en það. Ég myndi ekki vilja vera í stjórn þar sem ekki væri meiri hluti kjósenda á bak við þann stjórnarmeirihluta. Svo við förum aðeins yfir það: Núverandi staða er þannig að Sjálfstæðisflokkurinn er með 21 þingmann en hlutfallslega ætti hann að vera með 18 þingmenn, miðað við einfalda deilingu. VG er með tíu og ætti að vera með tíu. Píratar eru með tíu, ættu að vera með níu. Framsóknarflokkurinn er með átta en ætti að vera með sjö. Viðreisn er með sjö, ætti að vera með sjö. Björt framtíð er með fjóra en ætti að vera með fimm. Samfylkingin er með þrjá, ætti að vera með fjóra. Flokkur fólksins er ekki með neinn, ætti að vera með tvo. Dögun er ekki með neinn, ætti að vera með einn.

Þetta þýðir í rauninni að núverandi stjórn ætti að vera með 30 þingmenn, núverandi stjórnarandstaða 30 og þeir sem eru utan þings með þrjá.

Nú er það svo að núverandi meiri hluti er með 88.434 atkvæði á bak við sig. Núverandi stjórnarandstaða er með 90.299 atkvæði á bak við sig. Það er nákvæmlega eins og við værum í fótboltaleik og liðið sem skoraði færri mörk myndi vinna. Það er það sem ég kalla ekki mjög lýðræðislegt og ekki mjög íþróttamannslegt. Ég skil ekki að fólk hafi siðferðilega getað kvittað undir það að fara í meirihlutasamstarf ekki með lýðræðislegan meiri hluta á bak við þá ákvörðun. Ég skil það ekki. Ég hef áhyggjur af því siðferði, satt best að segja. Ég sé að sumir glotta, ég skil ekki af hverju. Mér finnst það ekkert fyndið, mér finnst það dauðans alvara eins og var talað um hér áðan.

Já, þetta er niðurstaða samkvæmt þeim lögum sem við höfum, en ég er líka að gera þetta sérstaklega til þess að benda á að lögin eru gölluð, þau eiga ekki að geta leitt til þessarar niðurstöðu. Það er það einfalt. Ég vil ekki vera í stjórnarmeirihluta þar sem ekki er stuðningur meiri hluta kjósenda.