146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Í stefnu HB Granda segir, með leyfi forseta:

„HB Grandi leggur áherslu á samfélagslega ábyrgð enda hefur það ætíð verið metnaður fyrirtækisins að öll starfsemi þess endurspegli ábyrgð gagnvart auðlindum sjávar og samfélaginu.“

Já, þetta eru fögur orð sem kvótahæsta fyrirtæki landsins setur fram í stefnu sinni. Að sjálfsögðu eiga fyrirtæki sem hafa nýtingarrétt yfir auðlindum þjóðarinnar að sýna samfélagslega ábyrgð í verkefnum sínum.

Fram hefur komið í fréttum að HB Grandi hafi í hyggju að hætta allri botnfisksvinnslu á Akranesi. Vegna þessa eiga um 100 manns á hættu að missa vinnuna. Ef af verður mun það hafa gríðarleg áhrif á bæjarfélagið Akranes, þá einstaklinga sem aðgerðin nær til, á útsvarstekjur bæjarins og á þjónustu hans. Ef af þessu verður getur það haft gríðarleg margfeldisáhrif.

Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort núverandi fyrirkomulag kvótakerfisins virki sem skyldi þegar við sjáum að kvótahæsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins þarf að grípa til hagræðingaraðgerða, fyrirtæki sem hefur hagnast um 40 milljarða frá hruni. Árið 2016 hagnaðist það um 3,5 milljarða og fyrirhugaðar eru arðgreiðslur vegna ársins 2016 upp á 1,8 milljarða.

Skagamenn eru verulega slegnir vegna þessara ákvarðana. Ég bið forsvarsmenn HB Granda að sýna þá samfélagslegu ábyrgð sem fram kemur í stefnu þeirra, fresta þessum aðgerðum, eiga viðræður við bæjarstjórn Akraness, Faxaflóahafnir og aðra hlutaðeigandi aðila og vinna að lausn á þessum málum.

Ég ætla síðan í lok ræðu minnar að fagna máli sem kom fram í fréttum í gær. Ég ætla að hrósa Vegagerðinni fyrir ákvörðun sína að ætla að sækja um framkvæmdaleyfi vegna vegagerðar um Vestfjarðaveg nr. 60. Loksins eru hagsmunir samfélagsins settir í forgang. Mikilvægt er að hv. þingheimur, (Forseti hringir.) og þá sérstaklega samfélagið á Vestfjörðum, fái upplýsingar um hver tímalína þessa ferlis verður og einnig um áætlun hæstv. samgönguráðherra um fjármögnun á þessu mikilvæga samgönguverkefni. Stórt hrós til Vegagerðarinnar fyrir ákvörðunina.