146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Okkur hefur orðið tíðrætt í þinginu um kostnað fólks vegna heilbrigðisþjónustunnar. Nú á dögunum var í Fréttatímanum frétt af manni sem var að fara í blóðtöku og hafði gert það á heilsugæslustöðinni á Sólvangi fram til þessa en var svo tilkynnt þegar hann mætti þangað að nú væru þeir hættir að sinna slíku. Hann greiddi í kringum 1.200 kr. fyrir þessa þjónustu alla jafna en síðan þetta var hefur hann þurft að fara á Læknasetrið og greiða 9.000 kr. fyrir sama viðvik. Samkvæmt samtali við svæðisstjóra heilsugæslustöðvarinnar á Sólvangi staðfestir hún að þessari þjónustu hefur verið hætt vegna þess að hún sé of kostnaðarsöm fyrir heilsugæsluna, hún væri að borga með þessu.

Það vantar ekki viljann til að sinna verkinu en hins vegar vantar peninga til að sinna því. Hún klykkir út með því að stjórnvöld séu að skoða þetta. Þess vegna hef ég óskað eftir því að eiga orðastað við þingmann og vonandi fær hún einhverjar góðar fregnir því að eins og við þekkjum hefur heilsugæslunni gengið almennt treglega að sinna þjónustu við mjög marga sjúklinga, sérstaklega á Reykjavíkursvæðinu, og fólk fer í ríkum mæli út á einkastofurnar og borga miklu meiri fjármuni fyrir það. Það kemur fram á Vísindavefnum þar sem verið er að ræða þessi mál að stjórnvöld hafi ekki fylgt skýrri og heildstæðri stefnu um að halda niðri útgjöldum sjúklinga vegna heilbrigðisþjónustu mörg undanfarin ár og útgjöldin hafi aukist þegar til lengri tíma er litið þó að þau hafi sveiflast frá árabili til árabils. Breytingar hafa líka verið óskipulagðar og ófyrirséðar í kerfinu.

Við þekkjum að það er annmarki á því að þótt búið sé að setja þak á kostnað vegna sjúklinga og heimsókna þeirra til lækna er mjög margt sem er ekki þar undir enn þá, t.d. sálfræðiþjónusta og tannlæknaþjónusta.

Mig langar að spyrja (Forseti hringir.) hv. þingmann hvort hún telji að þetta sé ásættanlegt og hvort ríkisstjórn hennar, sem hún styður, komi til með að kippa þessu í liðinn þannig að fólk sem þarf að fara í svona blóðtöku þurfi ekki að borga eins mikið.