146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Hversu miklu erum við tilbúin til að fórna til að halda í úreltar hugmyndir um nauðsyn starfa? Þegar við erum komin á þann tímapunkt að fyrirtæki sjá hagræðingu í því að flytja starfsemina eða, eins og útlit er fyrir í nánustu framtíð, jafnvel sjálfvirknivæða starfsemina, hvaða tól höfum við í höndunum til að halda í þessi dýrmætu störf? Við getum lækkað skattbyrðar á fyrirtækin eða lækkað laun starfsmanna, boðið fleiri ívilnanir, grátbeðið um að fá að halda þessum störfum á grundvelli samfélagsábyrgðar. Þetta gæti haldið vélinni gangandi í einhvern tíma. En hvað gerist svo þegar tækniframfarir leiða af sér skilvirkari og ódýrari sjálfvirknivæðingu eða ódýrara vinnuafl finnst annars staðar? Hversu lengi höldum við þessu leikriti gangandi með upphrópunum um samfélagslega ábyrgð stórfyrirtækja sem hafa það eina markmið að hámarka hagnað?

Samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja sem hafa það eitt að markmiði að græða er vitaskuld engin og hefur aldrei verið það. Það er blekking ein og barnaskapur að trúa slíku tali á tímum þegar allir vita að ársfjórðungsuppgjör og skammtímaafkoma hluthafa er það sem ræður för. Við þurfum að leggja áherslu á að tryggja réttláta dreifingu arðs af auðlindum en ekki ríghalda í láglaunastörf sem fæstir myndu hafa áhuga á að vinna ef þeir hefðu valfrelsið sem felst í auknum efnahagslegum réttindum. Við þurfum að fara að skoða það alvarlega að aftengja vinnu og laun. Það að eiga ofan í okkur og á eru grundvallarmannréttindi sem okkur ber með réttlátri dreifingu auðlinda í sameiginlegri eigu allra Íslendinga að tryggja hverjum einasta borgara landsins óháð vinnu. Það þarf svo að vera val hvers og eins hvert vinnuframlag hans til samfélagsins verður. Launin fyrir þá vinnu verða þá viðbót. Það á enginn að neyðast til að vinna til að fá að lifa. Þá hugmyndafræði þarf að endurhugsa. Eins og staðan er núna er samfélagið og lagaumhverfið hannað til að þjóna hagsmunum fyrirtækja sem hafa það eina markmið að hámarka hagnað í nafni frjáls markaðar, ekki þarf nema að líta til United Silicon til að sjá nýjasta dæmið um rangláta forgangsröðun.

Forseti. Hinn raunverulegi frjálsi markaður felst í því að valdefla borgara landsins til að hafa val, óháð efnahag, raunverulegt frelsi. Þannig réttum við markaðinn og einföldum öll kerfin okkar, með því að skapa traustan grunn til að byggja samfélagið á.