146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í gær birti sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins lokayfirlýsingu eftir heimsókn sína til Íslands á dögunum. Margt áhugavert er að finna þar. Tvennt vekur þó sérstaka athygli og tengist fyrirhugaðri bankasölu og er kannski sérstaklega viðeigandi í dag að vekja máls á þessu í ljósi niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis um söluna á Búnaðarbankanum.

Í fyrsta lagi er kallað eftir stefnu sem tryggir að bankarnir verði í höndum traustra eigenda og nefnt að gæði nýrri eigenda eigi að hafa forgang umfram hraða viðskiptanna og verð. Þarna er vakin athygli á langtímahagsmunum bankakerfisins og kallað eftir heildarstefnumótun er varðar framtíðarskipan bankakerfisins. Þessa sýn vantar algjörlega hjá stjórnvöldum og þess vegna hefur lítið heyrst frá þeim eftir að nýleg sala á hlut í Arion banka varð að veruleika. Í öðru lagi er nefnt að þetta muni reyna á Fjármálaeftirlitið og þeir hvattir til að í mati á nýjum eigendum verði það ítarlegt, nákvæmt og sanngjarnt.

Staðreyndin er sú að íslensk stjórnvöld vita ekki hverjir eru endanlegir fjárfestar að þessum 30% hlut í Arion banka. Samt voru íslensk stjórnvöld og ráðamenn tilbúin að fagna þessari þróun. Fjármálaeftirlitið gat t.d. ekki svarað því hvort Goldman Sachs væri endanlegur fjárfestir að sínum hlut. Fjármálaeftirlitið er að vinna í því að veita okkur svör í efnahags- og viðskiptanefnd hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Það þarf að byggja upp traust á næsta áfanga er varðar endurreisn fjármálakerfisins. Stjórnvöld hafa þar ríkum skyldum að gegna. Ég hvet stjórnvöld til að fara í heildarstefnumótun er varðar framtíðarskipan bankakerfisins og fara í verkið af meiri festu en gert hefur verið hingað til.