146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[15:54]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og sérstaklega þá áherslu sem hún leggur á mikilvægi fjármálastefnunnar því þetta er vissulega plagg sem við erum að horfa á fyrir næstu fimm ár.

Ég vil hins vegar gera athugasemd við að það vantar kannski skilning á því hvers vegna við viljum í þessari fjármálastefnu skila afgangi og sýna aðhald. Ástæðan er sú að við viljum lækka vaxtastig í landinu. Við viljum lækka tekjurnar sem tekjumesta fólkið, fólkið sem er með eignirnar, er með, það fái minni tekjur og hinir sem skulda, þeir sem eru tekjuminni, þeir sem eru að eignast sínar fyrstu eignir, borgi minna en áður. Það séu sambærileg kjör á vöxtum eins og í nágrannalöndum okkar. Þetta á ekki bara við um einstaklinga heldur líka fyrirtæki, sveitarfélög, hið opinbera.

Hitt sem ég vildi gera athugasemd við hjá hv. þingmanni er í sambandi við sölu bankanna. Ég er ekki viss um að hv. þingmaður hafi setið hér í þingsal í gær þegar ég ræddi þetta. Þess vegna skal ég endurtaka það sem ég sagði þá. Það er gert ráð fyrir sölu eigna upp á 35 milljarða á hverju ári eða tekjur af þessum eignum. Nú er það svo að arður af bönkunum, sem ríkið á að nánast öllu leyti, í ár er einmitt rétt um 35 milljarðar. Þessar tekjur leiða til þess að það er minni þrýstingur á að fara að selja þessar eignir strax. Við getum þess vegna gert eins og þingmaðurinn segir réttilega, vandað okkur mjög vel, (Forseti hringir.) sinnt þessu í opnu og gagnsæju ferli sem við erum sammála um.