146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:00]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að heyra að hæstv. fjármálaráðherra vill vanda til verka. Það er ekki vanþörf á. Varðandi niðurgreiðslu skulda og vaxtagjöldin velti ég fyrir mér, þar sem hæstv. fjármálaráðherra minntist á það í seinna andsvari, hvers vegna ekki sé nein áform að finna í fjármálastefnunni um að nýta bætta stöðu sem lægri vaxtagjöld ríkissjóðs skapa til þess að bæta almenna velferð. Þetta finnst mér vera eins og ég minntist á í ræðu minni kjarninn í fjármálastefnunni sem ég sakna. Ég held að ég sé ekki alein um það. Ég held að það væri akkúrat núna lag að fara í innspýtingu í velferðina, heilbrigðiskerfið, menntakerfið o.s.frv. En það bólar ekkert á því í þessari fjármálastefnu.

Ég hefði vonast til að hér væri að finna metnaðarfull áform um raunverulega innviðauppbyggingu. Ég vona að þau metnaðarfullu áform líti dagsins ljós af hálfu hæstv. fjármálaráðherra, að hann endurskoði hug sinn og finni svigrúm og pólitískan vilja til þess að fara í raunverulega uppbyggingu innviða eins og hann lofaði fyrir kosningar.