146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:04]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir hans vangaveltur kannski frekar en andsvar. Ég er fyllilega sammála hv. þingmanni. Það er ansi margt sem vantar í þessa fjármálastefnu. Hv. þingmaður talaði um hraða niðurgreiðslu skulda, þessa ofuráherslu á hana — bara til að halda því til haga er sú sem hér stendur mikil talskona þess að greiða niður skuldir, en þegar við erum farin að fara niður fyrir lögbundið markmið velti ég fyrir mér hvort við séum að teygja okkur of langt á sama tíma og við erum á hinn bóginn að láta hið frjálsa hagkerfi leysa úr þessum vandamálum sjálft. Hið opinbera er ekki að fara í tekjuöflunarleiðir til þess að fara í innspýtingu á uppbyggingu innviða og fjárfestingu o.s.frv. — það kemur hvergi fram í þessu plaggi — heldur er ofuráhersla lögð á niðurgreiðslu skulda. Eins mikið og ég er talskona þess að greiða skuldir sínar held ég að öllu megi ofgera í þeim málum. Eins og ég lýsti hér áðan hefði ég frekar viljað sjá hér metnaðarfull áform um raunverulega uppbyggingu og innviðafjárfestingu. Við höfum svigrúm til þess núna í fyrsta skipti í mjög langan tíma. Því ekki að nýta tækifærið?