146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:06]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er allt hluti af umræðunni. Þó að það sé kannski ekki nákvæm spurning til hv. þingmanns er til dæmis talað um það í fjármálastefnunni, þegar skuldir opinberra fyrirtækja eru teknar með líka, að heildarlækkun skulda sé 66 milljarðar. Landsframleiðsla er að hækka á þessum tíma o.s.frv. Vonandi verður svo hagvöxtur. Gert er ráð fyrir honum. Sumir umsagnaraðilar kalla það að vonast sé eftir kraftaverki. Svona langt hagvaxtarskeið hefur aldrei orðið áður. En við krossum fingur. Við sáum aldrei greiningar á því hversu mikil áhrif ferðamannaaukningin hafði á þennan hagvöxt. Ef hann stoppar er ekki hagvöxtur, þá er bara stöðnun. Hvaða áhrif hefði það á hagvöxt á næsta ári ef ferðamönnum myndi ekki fjölga eins og gerst hefur undanfarin ár? Ég bað um þessar upplýsingar í fjárlaganefnd en hef ekki enn fengið þær. Kannski er ekki auðvelt að reikna það, ég veit það ekki. Það vantar mikið upp á sviðsmyndagreiningu þar.

En það sem ég er að reyna að vekja athygli á er að það eru þessi tvö ákvæði í stefnunni sem binda okkur dálítið mikið fyrir næstu fimm ár. Annars vegar er þessi áhersla á skuldalækkun, sem ég get alveg kvittað undir, það er gott og þarft verk að fara í. En það er bara á skuldir ríkissjóðs, ekki er talað um langtímaskuldbindingar eða skuldir opinberra fyrirtækja. Svo er það þetta ákvæði um að allar einskiptistekjur fari í skuldaniðurgreiðslu. Það gæti orðið dálítil hindrun hvað það varðar að bregðast við vandamálum sem koma upp. Því að það gerist.