146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:31]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Ég hjó eftir því að hún minntist á sveiflujöfnunarhlutverk ríkisins og ljóst var að þar var hún að tala um hagsveiflur miklu frekar en gengissveiflur þó svo að stundum sé ákveðin fylgni þar á milli. Mig langaði til að forvitnast um afstöðu hv. þingmanns til þeirrar hugmyndar sem kemur fram í fjármálastefnunni um svokallaðan varúðarsjóð. Mér þykir þetta nafn heldur „orwellískt“. Enska þýðingin er Southern Wealth Fund sem ég kysi frekar að kalla þjóðarauðssjóð frekar en varúðarsjóð. Mér finnst hugtakið varúðarsjóður gefa í skyn einhvers konar aðsteðjandi áhættu sem að vissu leyti er til staðar, en sveiflujöfnunarhlutverkið er kannski ekki alveg ljóst í þessum sjóði.

Nú væri alveg hægt að útfæra svona sjóði með ýmsu móti og hefur það verið gert á sumum stöðum. Frægasti þjóðarauðssjóðurinn er í Noregi, en þeir eru víða til. Þegar við erum að tala um sveiflujöfnun á það að vera í „keynesískri“ nálgun, eins og maður myndi kalla það, eða ætti þetta að vera miklu beinna aðhald að gengi og hvernig myndi það til dæmis tengjast hugmyndum Viðreisnar um fastgengisstefnu og öðrum hugmyndum um breytingar í gjaldmiðilsmálum?