146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:33]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég væri alveg hlynnt því að setja upp sjóð, hvaða nafni sem við köllum hann, varúðarsjóð eða auðlindasjóð þjóðarinnar. Ég tel rétt að huga að því að leggja fyrir í hann fyrir komandi kynslóðir af því sem við öflum. Við getum horft á þetta eins og á heimilið, þar sem við reynum að leggja eitthvað fyrir til að mæta óvæntum útgjöldum. Sama ætti að eiga við hvað varðar ríkið, við þyrftum að koma upp slíkum sjóði. Það hefur verið til umræðu lengi og ég myndi styðja það, hann yrði þá fyrst og fremst nýttur þegar þörf væri á. Þegar niðursveifla væri í hagkerfinu myndi maður ætla að hægt yrði að fara í þennan sjóð eftir ákveðnum reglum og bæta í til að brúa bilið. Það gerir hin hagsýna húsmóðir þegar hún rekur heimili sitt með maka sínum, hún nýtir [Hlátur í þingsal.] — já, ég skammast mín ekkert fyrir að vera hagsýn húsmóðir og tek það orð gott og gilt. En gott og vel. Auðvitað eigum við að nýta þá fjármuni til að koma með innspýtingu inn í samfélagið þegar þörf er á því. Skuldir eru ekki alltaf slæmar, ríkið er allt of feimið við að tala fyrir því. Skuldir geta verið góðar þegar þær eru fjárfesting í jákvæðri uppbyggingu sem skilar sér aftur út í samfélagið og borgar sig. Skuldir eru ekki slæmar í sjálfu sér eða í eðli sínu ef þær eru fjárfesting í uppbyggingu í mikilvægum hlutum sem samfélagið greiðir síðan niður.