146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má alveg hugsa það upphátt með hv. þingmanni hvernig slíkar reglur yrðu í sjálfu sér. Það fyrsta sem kemur upp í minn huga við mótun slíkra reglna er aðkoma fjölbreytileikans í samfélaginu að þeim reglum, ekki bara einhverra viðskiptamógúla heldur almennings í landinu. Það gæti verið í gegnum félagasamtök í landinu og stéttarfélög og þá er ég líka að tala um aldraða, öryrkja og hagsmunasamtök í atvinnulífinu. Mér finnst að það þurfi að vera þverskurður samfélagsins sem mótar slíkar reglur, því að þetta yrði varúðarsjóður fyrir allt samfélagið, ekki bara fyrir sjávarútveginn eða álverin eða ferðaþjónustuna þegar illa gengi þar, þegar mæta þyrfti óvæntum áföllum þar, heldur líka til að mæta áföllum sem almenningur stendur frammi fyrir. Þá get ég nefnt ójöfnuð og fátækt í landinu. Ef við höfum efni á að leggja til hliðar í slíkan sjóð, sem við höfum auðvitað efni á, eigum við líka að vinna að því að útrýma félagslegri fátækt og hafa velferðarkerfið þannig að ekki séu þar göt sem fólk dettur á milli, niður úr því öryggisneti sem við viljum að velferðarkerfið sé. Við þurfum að tryggja almenningi í landinu mannsæmandi kjör. Það finnst mér allt of oft hafa gleymst, í allri hagfræðiumræðu og í umræðu um ríkisfjármál, að allir geti búið við mannsæmandi kjör í þessu ríka landi.