146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[16:44]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom einmitt að lykilatriðinu. Hér stendur, með leyfi forseta:

„Ákvörðun um nýjar fjárfestingar þarf að byggja á skýrum arðsemisforsendum …“

Er það svo að flugvelli vítt og breitt um landið þurfi endilega að byggja út frá arðsemisforsendum? Við horfum upp á það að okkar aðalgátt inn í landið getur lokast. Við erum á eyju þar sem töluvert er um eldgos miðað við það sem gerist og gengur í öðrum löndum í kringum okkur og því þurfum við fleiri flugvelli. Ef allt á að vera byggt upp á arðsemisforsendum, hvað varðar rekstur fyrirtækja í opinberri eigu, og ég nefni Isavia, þá erum við ekki að horfa á heildarmyndina út frá samfélagslegum þáttum. Á sama tíma og við tökum á móti fleiri þúsund ferðamönnum á ári hefur húsnæðisvandinn aukist gríðarlega. Nú veit ég ekki hve margir milljarðar fara í uppbyggingu hjá Isavia á ári, en ímyndum okkur allan þann mannafla sem þarf. Á sama tíma hefur eftirspurn eftir íbúðum aukist gífurlega. Afkastageta íslensks byggingariðnaðar er um það bil 4.000 íbúðir á ári. Ef við erum í samkeppni þarna þurfum við ekki að hugsa þetta svolítið í stóru myndinni? Þurfum verið ekki aðeins að bregðast við því hvernig við ætlum að ná að ballansera þetta allt? Þetta snýst ekki bara um arðsemisforsendur. Þetta snýst líka um samfélag og hvernig samfélag við viljum byggja. Ég sé ekki miklar samfélagslegar forsendur í þessari fjármálastefnu.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún sjái það einhvers staðar. Hvar er samfélagið í þessari stefnu?