146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Það er ágætt að taka samtalið út frá pólitíkinni því að þetta er ekkert annað en pólitík, þetta plagg, mikil hægri pólitík sem hér er undir. Plaggið sem slíkt, eins og þingmaðurinn kom inn á, gengur einmitt frekar út á að fjötra ríkisstofnanir, sem undir það heyra, en að gera þeim kleift að verða betri. Ég tek undir það hjá hv. þingmanni. Við erum að búin að festa bæði þak og útgjöld, ramma þetta stíft inn til margra ára. Flestir í meiri hlutanum virðast líta svo á að þessu verði ekki breytt á þessu tímabili nema hamfarir ríði yfir.

Þingmaðurinn ræddi um innspýtinguna í heilbrigðiskerfið. Nú hefur félagsmálaráðherra sagt að hann ætli að standa við þá samninga sem gerðir hafa verið vegna húsnæðismála og stofnframlaga og annað slíkt. Það hleypur á einhverjum milljörðum á næstu árum og auk þess þekkjum við þetta allt með Vegagerðina o.s.frv. Ég segi eins og þingmaðurinn: Ég hlakka til að sjá hvort áætlunin felur þetta í sér. Ég hef hins vegar miklar áhyggjur af því að hinn almenni þingmaður, sem ekki hefur setið í þingsal og hlustað á þær ræður sem hér hafa verið fluttar, átti sig kannski ekki á því hvað er verið að festa í sessi. Ég hef áhyggjur af því að fólk átti sig ekki á því af því. Það sem hér hefur komið fram hefur, held ég, skýrt myndina að einhverju leyti.

Ég spyr þingmanninn hvort hann telji í þessu ljósi að félagsmálaráðherra geti staðið við alla sína áformuðu uppbyggingu, hvort samgönguráðherra geti staðið við sína uppbyggingu án þess að fara í einkaframkvæmdir o.s.frv.