146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:18]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Við erum að mörgu leyti sammála um þetta og mér finnst mjög áhugavert að velta því fyrir sér hvernig hægt er að vinna áfram með þetta. Ég er þeirrar skoðunar að ólög séu betri en engin lög og þess vegna verði að vanda vel til verka, sérstaklega þegar kemur að því mikilvæga hlutverki að deila út þeim sameiginlegu fjármunum sem samfélagið aflar sér.

Þetta er nefnt eitt stærsta frumvarp ríkisstjórnar. Ég er pínulítið hissa á áhugaleysi stjórnarliða í umræðunni. Mér telst til að sjö hv. stjórnarþingmenn hafi tekið þátt í umræðunni hingað til, þar af hæstv. ráðherra og hæstv. formaður fjárlaganefndar og framsögumaður. Það hefði verið gaman að eiga orðastað við fleiri um þetta mál.

Mig langar í lokin að spyrja hv. þingmann hvað honum finnst um þetta ákvæði, sem er í raun viðbót við lög um opinber fjármál, um að árleg heildarútgjöld hins opinbera verði ekki umfram 41,5% (Forseti hringir.) af vergri landsframleiðslu á tímabilinu. Hvað finnst hv. þingmanni um að setja það í þingsályktunartillögu sem fái lagagildi til næstu fimm ára?