146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:20]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Með lögum skal land byggja en ólögum eyða. Ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni um það að ólög séu skárri en engin lög, ég get ekki sagt … (Gripið fram í.) Ha? (KÓP: Ég sagði að þau væru verri en engin lög.) — Ókei, í því tilfelli er ég sammála hv. þingmanni. Afsakið, en mér misheyrðist alveg hrapallega, það er versta tegund misheyrnar að snúa merkingu orða alfarið við. Þá erum við sammála. Gott að það sé skýrt.

Þá að spurningunni sem skiptir kannski meira máli í þessu samhengi. Auðvitað hefur ríkisstjórnin ákveðið svigrúm til að ákveða hverju sinni hvernig hún vill haga fjármálastefnu sinni. Auðvitað hefur Alþingi þann rétt að gera athugasemdir við það eins og við gerum hér. Það tiltekna atriði að setja þak á útgjöld — ef þakið væri nógu hátt til að allt sem þyrfti að gera rúmaðist undir því þá væri það í lagi. Mér finnst þetta ekki endilega röng aðferðafræði eða: Jú, þetta er raunar röng (Forseti hringir.) aðferðafræði, en það er ekki rangt að hafa svona viðmið heldur eru þetta bara röng viðmið.