146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:21]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér enn þingsályktunartillögu um fjármálastefnu fyrir árin 2017–2022. Mig langar í upphafi míns máls að segja að ég er almennt séð frekar hlynnt því að gerðar séu áætlanir og að stefna sé sett. Það er gott að hafa framtíðarsýn og að vita hvert meiningin er að fara. Stefnan sem hér er undir er engin smástefna, þetta er stefna um það hvert eigi að fara með samfélagið Ísland næstu fimm árin. Í raun hefði auðvitað verið langbest ef við hefðum öll, allir 63 þingmennirnir, verið hér á dekki og þar með talið hæstv. ráðherrar en ekki einungis hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem hefur, þótt hann sé ekki hér akkúrat núna, fylgst með þessari umræðu og tekið þátt í henni eftir atvikum. Hér ættu að vera miklu fleiri að tala um þetta.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór reyndar vel yfir það í ræðu hér í gærkvöldi og svo kom það einnig fram í orðaskiptum hv. þm. Smára McCarthys og Kolbeins Óttarssonar Proppés hér áðan að fjárveitinga- og löggjafarvaldið er alltaf í höndum Alþingis og að Alþingi geti breytt hlutum, en hér eru málin svolítið óljós og virðist vera að sitt sýnist hverjum. En óháð því hvort hægt er að breyta einhverju í t.d. fjárlögum þá breytir það ekki því að hérna er verið að setja stefnu sem markar þá línu sem koma skal. Stefnan er frekar skýr. Gallinn við hana er bara að hún er ekki í takti við þarfir samfélagsins.

Það er vissulega mikilvægt að greiða niður skuldir eins og hæstv. ráðherra hefur margítrekað, en það þarf líka að setja peninga í að treysta innviðina, styrkja t.d. velferðar- og menntakerfið. Það verður einfaldlega að gera hvort tveggja. Það er ekkert víst að það verði hægt að gera það með þessa stefnu.

Raunar er það þannig með þetta þingmál eins og vill verða með sum mál að það eiginlega versnar bara eftir því sem umræðunni vindur fram, enda hafa hv. þingmenn komið í ræðustól og dregið fram og varpað ljósi á það hversu illa ígrundað málið er og fært fyrir því rök, t.d. að viðbótarútgjöld þurfi að rúmast innan hagsveiflunnar og svo auðvitað að lagt sé til að sett verði á útgjaldaþak.

Ég velti fyrir mér hvort ég ætti að sleppa því að ræða það að styrkja þarf innviðina vegna þess að við höfum rætt það svo mikið, en það er ekki hægt að sleppa því vegna þess að það eru innviðirnir sem halda samfélaginu okkar saman. Við verðum að ræða samgöngumálin. Við verðum að ræða menntamálin. Við verðum að ræða velferðarmálin vegna þess að til þess að allir geti haft það gott í íslensku samfélagi þá þurfa þessir þættir að vera í lagi og til þess að þeir séu í lagi þarf að tryggja að það fjármagn sem þarf í þá sé skaffað. Það getur verið breytilegt eftir tímabilum hvað þarf að setja mikla peninga í þessa þætti, en það er hins vegar alveg ljóst að eftir niðurskurð, fyrst kreppunnar og jafnvel áranna fyrir kreppu, þrátt fyrir að hér hafi verið efnahagslegur uppgangur í mörg ár, þá hafa ekki farið nógu miklir peningar í innviðina. Allir finna fyrir því, það er alveg sama hvort við erum að keyra á vegi einhvers staðar á Vestfjörðum eða hvort við þurfum á t.d. læknisþjónustu að halda vegna þess að við erum haldin kvíða. Alls staðar finnum við fyrir þessu af því að ekki hafa verið settir nægjanlega miklir peningar í þessa þætti.

Ég veit ekki hvort hv. þingmenn eða almenningur, sem ég veit ekki hversu nákvæmlega hefur fylgst með þessari umræðu sem við höfum átt í dag og í gær um þetta mál, hafi hreinlega áttað sig á því að ef þessi stefna verður samþykkt þá er bara alls ekkert víst að farið verði í neina innviðauppbyggingu nema þá kannski með því að gera það með einkavæðingu eða í gegnum einkarekstur eða eins og bent hefur verið á að gera það með aðkomu lífeyrissjóðanna, sem ég verð nú að segja að er svolítið skrýtið ef þeir eiga að fara að reka spítalana okkar. Ég held að það sé engin stemning fyrir þessari stefnu í samfélaginu.

Fyrir kosningar voru allir sammála um að innviðauppbygging væri nauðsynleg. Þessi fjármálastefna gerir bara ekki ráð fyrir henni. Ef þær spár um þróun hagkerfisins sem stefnan byggir á ganga ekki eftir þá gæti afleiðingin hreinlega orðið sú að það verði skorið niður í samneyslunni. Er þá plan B að velferðarkerfið verði einhvers konar hagstjórnartæki? Þessu velti hv. þm. Oddný G. Harðardóttir upp í nefndaráliti sínu. Mér brá pínulítið við að lesa það en finnst ábendingin þörf og mikilvæg.

Herra forseti. Því hefur verið velt upp í umræðunni hvort þær forsendur sem gefnar eru í fjármálastefnunni séu raunhæfar og byggðar á traustum grunni. Það segir hreinlega í feitletraðri fyrirsögn í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar að áframhaldandi hagvöxtur sé meginforsenda stefnunnar. Í ljósi þess þá finnst mér verulega umhugsunarvert sem kom fram í máli hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur að hæstv. efnahags- og viðskiptanefnd fékk einungis sólarhring til að veita álit eða umsögn um málið. Það gat hún vitaskuld ekki gert vegna þess að það að fara yfir efnahagslegar forsendur er aðeins tímafrekara verk en svo að það megi vinna á einum sólarhring.

Fjármálaráð bendir einnig á að það verði að huga að óvissu í fjármálastefnunni og skoða sviðsmyndir í því samhengi. Nú sit ég ekki í hv. fjárlaganefnd og verð því að segja að maður hrekkur svolítið við þegar nefndarálit eru skoðuð og umsögn fjármálaráðs er skoðuð og maður sér hvað kemur þar fram. Líkt og segir í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar, með leyfi forseta:

„Í álitsgerð fjármálaráðs um tillöguna frá 9. febrúar 2017 er bent á að betur hefði mátt hyggja að forsendum spár um hagvöxt en þar er einungis byggt á þjóðhagsspá Hagstofunnar sem talið er að geti reynst ónákvæm vegna galla í reiknilíkönum og skekkju í gögnum.“

Þetta eru ansi þung orð frá nefndarmanni sem hefur farið í gegnum vinnuna við að taka á móti gestum og fara ítarlega í gegnum málið.

Það er annað sem er, eigum við að segja furðulegt, við þetta þingmál, en það er að í nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar er ekki tekið neitt tillit til athugasemda fjármálaráðs sem ég veit ekki betur en eigi að vera ópólitískt og horfa breitt yfir sviðið. Það skilaði ítarlegri umsögn um málið þar sem er að finna fjölmargar ábendingar um veikleika í stefnunni. Mig langar að vitna í það sem segir á bls. 15, með leyfi forseta:

„Fjármálastefnan byggir á hagfelldri en óvissri efnahagsspá. Með einföldum útreikningi má sýna að afkoman er mjög næm fyrir breytingum á framvindu efnahagsmála. Lítið frávik frá spánni getur leitt til þess að heildarafkoma, án frekari aðgerða, verði nálægt núlli og jafnvel neikvæð. Í þessu samhengi skal á það bent að óvissan eykst eftir því sem lengra líður á tímabilið. Að sama skapi er ljóst, líkt og með afkomumarkmiðið, að ef hagvöxtur reynist lægri en spár gera ráð fyrir gæti reynst erfitt að ná markmiði um útgjöld án aukins aðhalds.“

Það er að segja með niðurskurði. Ég verð að spyrja líkt og aðrir hv. þingmenn hafa gert: Hver er tilgangurinn með fjármálaráði ef það á ekkert að taka mark á því? Því hefur ekki verið svarað hér í umræðunni þó svo að ítrekað hafi verið spurt um það. Það hefur heldur ekkert komið fram sem ég hef heyrt um það hvers vegna ekki var tekið alla vega mið af einhverjum athugasemdum eða þær einhvern veginn orðaðar í nefndaráliti meiri hlutans. Mér finnst þetta furðulegt.

Í þriðja lagi langar mig að fjalla um sölu á ríkisbönkunum. Ég velti því fyrir mér hver stefnan er og er í raun litlu nær um það með því að hlusta á umræðuna. Er sala á eignarhlut ríkisins í bönkunum forsenda þess að fjármálastefnan hreinlega gangi upp? Þó svo hæstv. fjármálaráðherra segi og hv. þm. Haraldur Benediktsson, formaður fjárlaganefndar, hafi einnig komið inn á það að það þurfi að ræða það sérstaklega hvernig standa eigi að sölunni á bönkunum þá finnst mér ekki alveg ljóst hvort þessi sala sé forsenda stefnunnar og þess að hún hangi saman.

Það segir reyndar í nefndaráliti meiri hluta hv. fjárlaganefndar, með leyfi forseta:

„Einn af veigamestu óvissuliðunum á tímabilinu sem stefnan nær til tengist sölu eigna ríkissjóðs, einkum hlutdeildar þeirra í viðskiptabönkunum.“

Þannig að eitthvað er nú verið að gera ráð fyrir því að þarna kunni eitthvað að verða selt. Þá segir enn fremur, með leyfi forseta:

„Ljóst er að niðurgreiðsla á skuldum ríkisins ræðst að miklu leyti af því hvernig til tekst með sölu þessara eigna.“

Hæstv. forseti. Nú hefur talsvert verið rætt og spurt hvenær sé gott eða æskilegt að selja banka eða hlut í banka. Ég tel að ég geti alveg skammlaust viðurkennt að ég ein og sér er alls ekki hæf til þess að segja nákvæmlega til um það hvenær það sé rétt. Til þess að meta það þyrfti ég aðstoð og ráðleggingar mér fróðari manna um þau efni. En ég tel mig hins vegar engu að síður geta fullyrt að það er a.m.k. ekki gott að selja þegar kaupandinn veit að stóra planið þitt eða stefnan, fjármálastefnan í þessu samhengi, byggir á því að þú þurfir að fá peningana. Ég er alla vega nógu góður kapítalisti eða hef nógu mikinn skilning á hvernig kapítalisminn virkar til þess að vita það að það er vont að hafa svona forsendur þegar maður ætlar að fara að selja eitthvað hvort sem það er banki eða einhvers konar annað fyrirtæki. Þess vegna finnst mér bagalegt hversu óljóst og loðið þetta allt er. Það er ekkert nóg að ætla að gefa sér tíma og segja: Ja, við þurfum bara að vera búin að þessu eftir fimm ár. Það skiptir ekkert máli. Ég held að þeir sem hafi hug á því að kaupa hlut t.d. í bönkum — við skulum nú vona að þeir eigi peninga þó svo að fréttir dagsins sýni það að maður þarf jafnvel ekkert einu sinni að eiga peninga til að kaupa hlut í banka, en það er annað en þó auðvitað skylt mál í þessu — gætu bara beðið, vitandi það að verði þessi stefna samþykkt þurfi ríkið á peningunum þeirra að halda.

Að lokum vil ég segja að ég tel að það sé ekki tímabært að loka þessu máli. Það eru allt of margir gallar á því. Mér finnst skrýtið að meiri hluti hv. fjárlaganefndar hafi ekki gert neinar breytingar á málinu þrátt fyrir eins og ég rakti áðan að fjármálaráð hafi komið með miklar ábendingar um það sem betur þyrfti að hyggja að. Þess vegna vil ég taka undir með þeim sem hafa velt því upp að bíða með að ljúka umræðu um þetta mál þar til fjármálaáætlunin hefur verið lögð fram. Þá sést betur hvernig stefnan sem hér er lögð fram og boðuð kemur út og hvað hæstv. ríkisstjórn telur sig í raun geta gert fyrir innviðina, fyrir samfélagið með þá peninga sem eru hérna undir. Mér finnst það hljóma sem betri vinnubrögð í stað þess að setja stefnu til fimm ára.

Þó svo að ég hafi sagt það áðan að fjárveitingavaldið sé auðvitað alltaf Alþingis, við þingmenn þurfum að halda því til haga að þannig er það, þá er stefnan ekki bara marklaust plagg, hún er pólitísk yfirlýsing um það hvernig vilji er til að reka samfélagið. Vegna þess að í henni eru svona miklir veikleikar þá verðum við að skoða þetta í meira samhengi, líka vegna þess að þetta eru ný vinnubrögð, þetta er allt gert í umhverfi sem er nýtt og framandi fyrir okkur þingmenn, en ekki síður fyrir þá sem segja fréttir af því sem gerist hérna inni fyrir fjölmiðla og fyrir almenning sem fylgist með málinu. Það eitt og sér finnst mér vera góð rök fyrir því að fara sér hægt, taka eitt skref í einu en þó að hugsa um málið í samhengi. Þess vegna held ég að það gæti verið gott að vera búin að sjá hvernig fjármálaáætlunin kemur út miðað við þá stefnu sem hér er lögð fram. Best væri náttúrlega að sjá fjárlagafrumvarpið líka, en ég átta mig á því að það er kannski til full mikils mælst.