146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:42]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði aðeins að fá að koma hingað upp. Ég er alls ekki með neina tæmandi úttekt á orðum hv. þingmanns, en ég hjó eftir orðalagi hjá henni varðandi það í hvað við eyddum fjármunum okkar. Hv. þingmaður orðaði það þannig að við fyndum fyrir því að allir innviðir samfélagsins okkar hefðu verið skornir niður og mátti skilja á orðum hennar að engir innviðir samfélagsins væru nógu góðir. Mig langaði aðeins að fá að staldra við þann punkt. Ég hef verið örlítið hugsi yfir svona orðræðu almennt þar sem við vitum að við í þessum sal viljum alla jafna gera vel og skoða hvernig við getum nýtt best fjármuni okkar til samneyslunnar. Ég hef svolítið velt fyrir mér hvaða áhrif orðalag um mikilvæg mál hefur á skynjun fólks þar sem lokaorð hv. þingmanns voru einmitt um það hvernig umfjöllun um svona mál fer út í samfélagið.

Ég er örlítið hugsi yfir því þegar hv. þingmenn orða það þannig að hér séu engir innviðir samfélagsins nógu góðir, hvers konar upplifun fólk almennt hefur af samfélaginu. Finnst hv. þingmanni það standast að engir innviðir samfélagsins séu nógu góðir? Mér finnst svona orðræða minna um margt á kosningabaráttu þar sem því er haldið fram að allt sé vont og það eigi að gera allt. Mig langar að fá að forvitnast, fyrst hv. þingmaður orðar þetta svo: Hvar myndi hún forgangsraða? Hvaða innviði myndi hún taka fyrir til þess að laga?