146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:46]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er, með allir virðingu fyrir hv. þingmanni, ósammála henni um að það skipti ekki máli hvað við segjum hér. Þvert á móti er það partur af hlutverki okkar hér að hafa skoðun á samfélagi okkar sem berst síðan út í samfélagið, þótt auðvitað hafi allir skoðanir fyrir sig og hafa sína upplifun af þjónustunni og annað slíkt. Ég endurtek að mér fannst hv. þingmaður taka þarna fulldjúpt í árinni með því að fullyrða að allir innviðir samfélagsins væru í lamasessi. Ég er henni ósammála um það.

Mig langaði í því samhengi örstutt að koma inn á það sem mér finnst merkilega lítið talað um, t.d. þá ákvörðun að greiða niður erlendar skuldir og spara þannig vaxtakostnað. Vaxtakostnaðurinn er slíkur að það hefur mjög mikið að segja ekki síst inn í framtíðina, t.d. hvað varðar innviðauppbyggingu eða að viðhalda þeirri innviðauppbyggingu sem nú er í gangi og allir eru sammála um að sé nauðsynleg þótt okkur greini kannski stundum á hvar eigi að leggja þar áherslu og hvernig nákvæmlega eigi að gera.

Ég man eftir umræðu einu sinni þar sem maður orðaði það svo í útvarpsþætti einum að það væri synd að fara að eyða svona mikið af fjármunum ríkisins í ekki neitt. Það þótti mér áhugavert. Ég myndi halda að það væri einmitt dyggð í stjórnmálum að taka ákvarðanir fyrir framtíðina, ekki þó endilega að byggja þennan skóla eða þessa sjúkraálmu og setja á hana borða og klippa á, heldur einmitt að taka af fjármunum ríkisins til þess að geta byggt upp samfélag fyrir betri tíð, fyrir framtíðina, sem við viljum státa af. Það eru einmitt þannig ákvarðanir sem ég held að skipti ekkert síður máli og mig langar að enda á að spyrja hv. þingmann, (Forseti hringir.) frú forseti, hvort hún telji ekki rétt að taka svona ákvarðanir með í umræðuna um fjárfestingu í innviðum.