146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[17:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort ég var of óskýr í máli mínu hér áðan, en ég er þeirrar skoðunar að það sem við segjum hér inni skipti ekki máli fyrir upplifun fólks af því hvernig innviðirnir í samfélaginu virka. Þó svo að orð okkar skipti auðvitað máli og við segjum ýmislegt held ég að það skipti ekki máli í þessu samhengi því að ég held að fólk geti alveg metið það sjálft og finni það alveg sjálft og óháð því sem við segjum.

Varðandi skuldirnar, vaxtakostnaðinn og framtíðina ætla ég ekki að mæla gegn því að það sé mikilvægt að greiða niður skuldir. Ég er alveg sammála því. Það er mikilvægt. Það er mikilvægt fyrir framtíðina, en við verðum að gera hvort tveggja, að greiða niður skuldir og setja meiri peninga í samneysluna vegna þess að við hugum líka að framtíðinni þegar við setjum peninga inn í menntakerfið, sem þarf meira fjármagn bara til þess að vera samanburðarhæft við menntakerfi í öðrum OECD-löndum. Það er auðvitað liður í því að horfa til framtíðar. Það sama gildir um velferðarmálin og um samgöngumálin. Það er fjárfesting inn í framtíðina að sjá til þess að vegirnir verði hreinlega ekki verri en þeir eru núna, eins og hætt er við og við höfum séð að er að gerast vegna þess að það er ekki nægjanlega mikið fjármagn. Þess vegna tel ég að þetta tvennt þurfi að haldast í hendur, að það megi ekki bara ráðast hvort til séu nægir fjármunir í innviðina, (Forseti hringir.) heldur þarf stefnan að gera ráð fyrir þeim. Það þýðir þá vitaskuld (Forseti hringir.) að það verður að greiða vextina niður hægar, en að sjálfsögðu á að gera það líka.