146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú erum við búin að fara í gegnum fyrstu ræður í seinni umferð. Þá þætti mér vænt um að heyra frá meðnefndarmanni í fjárlaganefnd hvað við getum lært af þeim mistökum sem við höfum grafið upp í þessari umræðu og gert ferlið betra. Erum við eitthvað að læra af þessu? Sjáum við eitthvað sem hægt væri að gera betur? Hvað kemur til með að gerast í framhaldinu? Það er t.d. algert lykilatriði varðandi það gagnsæi sem á að fylgja samkvæmt lögum um opinber fjármál að við sjáum næstu skref og hvernig við getum gert betur næst.

Svo í annan stað: Þetta er einmitt lykilatriði sem hv. þingmaður minnist á, þessi áhrif á forgangsröðun sem þingið getur haft, þessi fjármálastjórn sem er samkvæmt stjórnarskrá í höndum Alþingis. Hvar og hvenær hefur þingið möguleika á að hafa áhrif á þá forgangsröðun sem kemur frá ráðuneytunum? Ég býst alla vega við að ráðuneytið komi með sinn verkefnalista: Hérna eru öll verkefni sem við sjáum okkur fært að vinna og öll þau sem við sjáum okkur ekki fært að vinna. Við erum búin að raða þeim upp í þessa röð, 1, 2 og 3 og hvernig sem það er, eftir tímalínu eða því um líku. Þá sjáum við á þingi hvaða verkefni myndu detta inn ef við bættum í pening eða hvaða verkefni dyttu út ef við gæfum ekki eins mikinn pening í það málefnasvið. Þá er sérstaklega mikilvægt að spyrja og lykilatriði: Getum við breytt forgangsröðuninni? Það er aðalatriðið og aðalspurningin.