146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:17]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Einkavæðing bankanna, skýrslan sem við erum búin að fá í hendurnar. Kannski hafa ekki margir haft tækifæri til að glugga í hana, ég er alla vega ekki byrjuð að gera það, en er auðvitað er ég búin að fá ákveðnar upplýsingar frá fulltrúa okkar Vinstri grænna í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og svo kom ýmislegt fram í fréttum. Þess vegna segi ég: Hverjir eiga að gæta hagsmuna okkar sem þjóðar? Hverjir eiga að gæta hagsmuna skattgreiðenda í þessu? Það var ekki gert þarna. Það klikkaði. Við þurfum að búa til traust. Ég verð að taka undir með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, þó að ég geri það nú ekki oft. Ég geri það núna þar sem áhersla hans er á að við förum okkur hægt, það sé engin ástæða til að rjúka til og selja bankana, við verðum að byggja upp traust og sjá til þess að gagnsæi sé fyrir hendi. Ég tel að það sé mjög mikilvægt.

Ég verð líka að treysta því sem formaður fjárlaganefndar er búinn að mæla fyrir, og það er hér í þingskjali. Fjármálaráðherra hefur svo sem sagt það líka að hann telji ekki endilega ástæðu til að drífa í því að selja bankana, en hann ætlar að byggja á einhverjum fyrirframákveðnum arðgreiðslum sem ekki eru í hendi. En vissulega byggir stefnan á því að þetta sé gert. En í áliti meiri hlutans kemur fram að málið þurfi að koma til þingsins og að skapa þurfi sátt um það ferli sem verði til til þess að selja bankana. Jafnvel er talað um að fá erlenda aðstoð. Ég held að það sé af hinu góða. Það þarf að byrja strax. Við getum ekki beðið, hvort sem við áætlum að selja í sumar, á næsta ári eða því þarnæsta. (Forseti hringir.) Það tekur tíma. Svona traust verður ekki til á núll einni. Sérstaklega ekki eftir allar þær upplýsingar sem við fáum núna dag frá degi.