146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:19]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir svarið og tek undir það. Það er margt sem við þurfum að huga að í þessu. Ég hef raunar ekki heldur lesið þetta til fulls en ég er kominn ágætlega áleiðis. Þetta er eins og góður reyfari aflestrar. Þarna eru alls konar spennuatriði. Eitt af því sem fylgir sögunni er að ríkið fékk líka aðstoð frá útlöndum síðast þegar þetta var gert, frá HSBC-bankanum. Þar var það mat þeirra að S-hópurinn svokallaði hafi haft betri aðstöðu einmitt vegna aðkomu Hauck & Aufhäuser bankans.

Ég er svolítið tortrygginn á að það að hafa frammi einhvern fagurgala um erlenda aðstoð tryggi allt sem tryggja þarf. Þess vegna held ég að vandinn sem okkur er á höndum hér í umræðu um fjármálastefnuna sé að verið er að ganga út frá því að binda hendur ríkisstjórnarinnar alla vega og hugsanlega líka Alþingis eftir því hvernig maður túlkar stjórnskipunarlegu atriðin. Verið er að gera það á grundvelli þess að það verði að selja bankana, sem skerðir í fyrsta lagi samningsstöðu ríkissjóðs sem seljanda bankana því að þá verða allt í einu allir hugsanlegir kaupendur með þær upplýsingar að það verði að selja bankana og verði að koma þeim í verð. Og svo er hin hliðin á þessum peningi að það er ekki tryggt ferli. Gæti hv. þingmaður kannski sagt aðeins meira um það hvernig svona ætti að ganga fyrir sig?