146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:30]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Vissulega ræðum við hér mikilvægt mál. Ég er búin að fylgjast vel með þessari umræðu. Til að koma hæstv. fjármálaráðherra og hv. formanni fjárlaganefndar til varnar þá hafa þeir setið hér í hliðarherbergjum og svo er svo gaman til þess að vita að hér eru allar ræður teknar niður, bæði í hljóði og mynd og skrifaðar, þannig að ég veit að þingmenn fylgjast víða með.

Það verður að segjast alveg eins og er að við erum kannski komin á þann stað í umræðunni að við séum svolítið farin að endurtaka okkur. Mér finnst ég vera að heyra sömu hlutina svolítið oft. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé bauðst til þess í gærkvöldi að fara upp í sumarbústað með öðrum þingmanni og endurskrifa stefnuna þannig að það er spurning hvort það komi eitthvert slíkt plagg frá hv. þingmanni. (Gripið fram í.)