146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:31]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég má til með að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hingað hafa komið og gagnrýnt algjört afskiptaleysi ríkisstjórnarinnar gagnvart þessari fjármálastefnu sinni eða kannski ekki algjört en töluvert sinnuleysi. Ég hef hug á að heyra frá fleiri ráðherrum en hæstv. fjármálaráðherra um hvernig þeir telja að þessi fjármálastefna hafi áhrif á þeirra málaflokk, þeirra framkvæmdir, áætlanir, kosningaloforð og fyrirheit þeirra þegar þeir stóðu að þessari ríkisstjórn saman. Ég fæ ekki séð að því verði komið til leiðar ef þeir sitja hér í einhverjum hliðarherbergjum eða horfa á sjónvarpið heima því að ekki geta þeir þá komið upp í pontu og rætt við okkur um þessa fjármálastefnu og hvernig þeir telja að hún muni t.d. stuðla að uppbyggingu innviða eða einhverju slíku. Ég á alla vega alla jafna ekki samtal við sjónvarpsskjáinn minn (Forseti hringir.) og það leiðir sjaldnast til upplýsandi umræðu þegar svo er.