146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:34]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég má til með að koma hingað upp í annað sinn þar sem sjónvarpið er ekki málstofa Alþingis. Jú, það er hægt að fylgjast með umræðunni en þetta er málstofan. Umræðan þarf að fara fram hér. Hún fer ekki fram á Facebook, hún fer ekki fram í sjónvarpinu, hún fer ekki fram við það að öskra á skýin. Nei, hún fer fram hér og það er hlutverk stjórnarmeirihlutans að sýna fram á það að þessar níu blaðsíður, átta ef við sleppum því að telja viðaukann sem er töflurit með, séu gott plagg. Og það er rétt sem aðrir hv. þingmenn hafa bent hér á, þetta er málaflokkur sem er það víðtækur og þetta er þess lags að við þyrftum eiginlega að fá fleiri hæstv. ráðherra hingað inn. Hvernig ætlar hæstv. heilbrigðisráðherra að fjármagna uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu? Hvernig ætlar hæstv. samgönguráðherra að fjármagna uppbyggingu í vegakerfinu?

Þetta eru allt saman spurningar sem stjórnarmeirihlutinn þarf að svara og til grundvallar liggur einmitt þetta plagg, (Forseti hringir.) þessar átta blaðsíður, og umræðan þarf að fara fram hér.