146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:47]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski er fjárveitingavaldið að hverfa út úr þingsal með þessum lögum um opinber fjármál, en má það sjálfsögðu ekki. Einn kostur sem ég sé við lögin er að þau minnka áhrifin og geta mögulega fjarlægt kjördæmapotið sem hefur verið svo slæmt í tíð fyrra fyrirkomulags. Kjördæmapot lýsir sér sem ófaglegar ákvarðanir um fjárveitingu, af því að ákveðið landsvæði fékk þingmann innan kjördæmis en ekki annað landsvæði þá er farið í framkvæmd á landsvæði þingmannsins en ekki byggt á faglegu vali þess kjördæmis í heild sinni eða jafnvel landsins í heild.

Svo minntist þingmaðurinn á ljósritunarvélina. Mér fannst það áhugaverð samlíking og satt best að segja myndi ég vilja að það væri eitthvað svipað og ljósritunarvél sem gæti aðstoðað okkur aðeins við t.d. fjárlagavinnuna þar sem við gætum stungið inn verkefni og fengið út kostnað, það er kannski eilítið flókið í framkvæmd. En eitthvað eins og Þjóðhagsstofnun eða einhver starfsvettvangur á vegum Alþingis sem jafnar upp þann aðstöðumun sem við þingmenn höfum gagnvart framkvæmdarvaldinu gæti hjálpað til og er held ég algjörlega nauðsynlegt til þess að markmið með umgjörð laganna náist. Þá höfum við eitthvert mótvægi við þetta valdboð að ofan eins og það lítur út. Að sjálfsögðu eiga hæstv. ráðherrar að vera í umboði þingsins en því virðist vera snúið við í lögum um opinber fjármál, sem er miður. Við verðum að gera eitthvað í því.