146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[18:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með þessum umræðum allan tímann, sem hafa staðið um þetta þingmál, og ekki vikið mér frá. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé fjallaði um loforð stjórnmálaflokka og framsetningu þeirra, hvað þeir segja í kosningabaráttu og hvað birtist síðan eftir kosningar. Í framhaldi af því langar mig að segja: Ég held að það sé allt í lagi að við ræðum svona hluti. Ég missti reyndar aðeins þráðinn þegar félagar mínir ræddu hér áðan um ljósritunarvélar, en það er allt í lagi.

Þannig háttar til í Svíþjóð, sem við berum okkur oft saman við og tókum svolítið mið af í lagasetningunni um opinber fjármál, að kosningastefnuskrár stjórnmálaflokka eða framboða eiga að fara til fjármálaráðs til umsagnar. Ég hef íhugað þetta heilmikið, eftir að við vorum í þessu ferli, hvort skynsamlegt væri að stíga þetta skref til að koma til móts við það sjónarmið sem þingmaðurinn rakti í ræðunni, því að maður tekur alveg eftir því í kosningabaráttunni að menn tala með mismunandi hætti um ríkisfjármál. Maður hlustar á stjórnmálamenn segja ýmsa hluti og þá segir maður oft og tíðum: Vá, þeir eiga eftir að svitna undan þessu einhvern tímann seinna.

Spurningin er þessi: Hvernig myndi þingmaðurinn bregðast við því ef við myndum nú innleiða það í lög þegar við endurskoðum löggjöfina — ég held að það sé ekki spurning hvort heldur hvenær við þurfum að gera það — að kosningastefnuskrár stjórnmálaflokka, framboða, yrðu að fara til umsagnar fjármálaráðs áður en þær væru raunverulega gildar kosningastefnuskrár í alþingiskosningum.