146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú hef ég fylgst með umræðunni frá upphafi og biðst forláts á því að finnast margt vera aðeins farið að þynnast, ég er ekki að setja út á það sem fólk er að segja. Nú hef ég lesið öll minnihlutaálitin og þau eru hvert fyrir sig góð samantekt fólks sem hefur lagt sig fram í vinnu í fjárlaganefnd við að greina þær upplýsingar sem þar koma fram; þær eru góður vitnisburður um samviskusamt fólk, svo að ég segi það bara, því að ég vil að í ræðustól könnumst við líka við það sem vel er gert og þegar fólk vinnur af samviskusemi.

Erindi mitt við hv. þingmann er: Nú er aðeins ein breytingartillaga í þessum fjórum minnihlutaálitum, hún er frá 2. minni hluta og snýr að skuldareglunni. Það á að ræða fjármálastefnuna og nefndarálit meiri hlutans og sannarlega ber hún enga breytingartillögu með sér, en ég er í sjálfu sér engu nær um stefnu minni hlutans eftir að lesa minnihlutaálitin. Ekki fela þau í sér neina breytingartillögur umfram þá breytingartillögu sem ég nefndi.