146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:02]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Ég hef líka lesið umrædd nefndarálit og er alveg sammála hv. þingmanni um að það á að hrósa því sem vel er gert, og það er margt vel gert í þeim. Það er rétt að það er ein bein breytingartillaga. Ég verð að játa að ég get ekki talað fyrir munn þeirra sem settu þessi minnihlutaálit fram, en ég vona að hv. þingmaður sé mér sammála um að í minnihlutaálitunum sé oft og tíðum að finna mjög víðtæka gagnrýni á frumvarpið. Það er svo annað mál hvort slík gagnrýni er sett fram í greinargerðum eða hvort bein breytingartillaga er gerð. Er það stjórnarandstöðu að gera breytingartillögu við fjármálastefnu ríkisstjórnar? Ég veit það ekki. Ég er nýr á þingi þannig að ég átta mig ekki alveg á því hver rétta þinglega leiðin er í því. Viljinn kemur skýrt fram í minnihlutaálitinu. Ég hefði haldið að það kæmi honum á framfæri ásamt umræðu um málið.

Hvað varðar álit meiri hlutans þá var ég pínulítið hissa á því að þar er ýmislegt, ýmsir fyrirvarar settir og óvissa um sumt, sem ég hefði talið að hægt væri að gera betur. En samt er lagt til að þetta sé samþykkt óbreytt. Ég hefði viljað fá þessa spurningu í fyrra andsvari, þá hefði ég getað snúið henni við á hv. þingmann: Hvernig stendur á því að miðað við álit meiri hlutans sem telur að ýmislegt þurfi að laga leggi meiri hlutinn ekki til að það sé lagað?