146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hafði auglýst ræðu sína og ég beið hennar með eftirvæntingu. Ég verð að segja að hún uppfyllti kannski ekki allar mínar björtustu vonir en þó verður að segja það að hv. þingmaður hefur talað allmálefnalega. Ég veit hann þekkir vel þetta ferli sem er hugsað núna, þ.e. þannig að við setjum fram fjármálastefnu sem er ramminn utan um útgjöld ríkisins. Í fjármálaáætlun er þetta útfært á einstaka málaflokka þannig að það er auðvitað skýringin sem hv. þingmaður kallar eftir á því af hverju er ekki skýrt hvernig stefnan mun virka á einstaka málaflokka. Það mun koma fram í fjármálaáætluninni. Það er mjög mikilvægt í hugsuninni bak við þetta ferli að þarna séu menn með aðskilda ferla, þ.e. byrja á rammanum, byrja að hugsa: Hvað er það sem við viljum að sé meginstefnan? Eins og hv. þingmaður benti á þá uppfyllir þetta afar vel áform í stjórnarsáttmálanum um lækkun skulda. Ég verð reyndar að segja hv. þingmanni það til hróss að sá hluti ræðu hans þegar hann las upp úr stjórnarsáttmálanum þótti mér með því besta sem sagt hefur verið hérna í dag.

Það eru einfaldar skýringar á því hvers vegna þetta er með þessum hætti. Ég veit að þingmaðurinn áttar sig á því að þarna er um ferli að ræða og það mun verða lögð áhersla á þessi einstöku atriði sem hann nefndi í fjármálaáætlun sem kemur síðar í vikunni.