146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er svo sannarlega rétt að við, óbreyttir þingmenn, höfum ekki aðgang að þessum efnahagslegu forsendum. Ég ætla að leyfa mér að velta því upp hversu mikið af gögnum hæstv. ríkisstjórn hefur, fyrst hún birtir ekkert annað en hagvaxtarspá Hagstofunnar, eða tiltekur hana máli sínu til rökstuðnings. Mér finnst að við þurfum alvarlega að íhuga hvort það er hreinlega ekki búið að kryfja efnahagslegu forsendurnar nægjanlega vel. Í því ljósi er enn bagalegra að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fengi ekki nægan tíma til að kafa ofan í efnahagslegar eða þjóðhagslegar forsendur.

Það er annað sem mig langar einnig að spyrja hv. þingmann út í. Nú hefur talsvert mikið verið talað um sölu á hlut ríkisins í bönkum og jafnvel einnig um sölu á öðrum fyrirtækjum í ríkiseigu. Ég fæ ekki betur séð en stefnan byggi, að minnsta kosti að einhverju leyti, á því að af þessari sölu verði. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér í því að finnast það skrýtið viðskiptamódel að vera búinn að koma sér í þá stöðu að þurfa að fá peningana, sem sá sem myndi kaupa hlutinn getur komið með inn í þjóðarbúið, til að stefnan gangi eftir. Er það ekki bara arfaslakur (Forseti hringir.) bisness, ef maður leyfir sér að sletta, frú forseti, að hugsa málið þannig?