146. löggjafarþing — 50. fundur,  29. mars 2017.

fjármálastefna 2017--2022.

66. mál
[19:34]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekkert svo viss um að stefnan myndi ganga upp þó til sölu bankanna kæmi; þær einskiptistekjur væru þá að fara í lækkun á sköttum og þá værum við í þessari hringavitleysu sem við lentum í áður. Við værum þá hins vegar í mjög góðri stöðu í framhaldinu. Ef það væri stefnan væri í lagi að kvitta upp á það, en það voru ekki kosningaloforðin.

Mig langar að minnast aðeins á það sem við töluðum um áðan varðandi tímann til að safna saman upplýsingum. Við höfum ákveðinn aðgang að upplýsingum en það tekur rosalega langan tíma að safna þeim. Upplýsingar sem við biðjum um, meira að segja í fjárlaganefnd, skila sér ekki í tæka tíð áður en málið er tekið út. Svo ef við stingum upp á breytingum þá þarf aðgang að því ferli að meta hvað þær þýða. Hvað þýða breytingarnar hvað varðar efnahagshorfur o.s.frv.? Við höfum heldur ekki nægjanlegan aðgang að þess háttar útreikningum í tíma.

Varðandi bankana tel ég að ekki sé hægt að fara í bankasöluna fyrr en við erum með tryggt lagaumhverfi um gagnsætt eignarhald, algjörlega ekki hægt. Og þá á þann hátt að alltaf sé hægt að rekja kaupendur og eigendur fyrirtækja niður á ákveðna einstaklinga og að tryggt sé að ekki sé hægt að vera með svona baksamninga eins og koma fram í rannsóknarskýrslu varðandi Búnaðarbankann. Þar sem þess háttar ógagnsætt eignarhald væri beinlínis ólöglegt samningsákvæði og einungis þinglýstir eigendur ættu löglegt tilkall til þeirrar eignar sem vísað er til. Ef við værum með svona laumusamning einhvers staðar á bak við gæti viðkomandi þinglýstur eigandi bara labbað í burtu og hinn hefði enga löglega vörn í því, því að hann væri með ólögleg samningsákvæði í hendinni.