146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

frekari rannsókn á einkavæðingu ríkisbankanna.

[10:34]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Tíðindi gærdagsins sýna að eftirlitsstofnanir könnuðu á sínum tíma ekki til hlítar aðkomu Hauck & Aufhäuser bankans við sölu ríkisins á hlut í Búnaðarbankanum. Fram kemur í skýrslunni að S-hópurinn hafi lagt mikla áherslu á að hafa erlent fjármagn til þess að gera tilboð sitt betra, en það sem vekur spurningar er hins vegar hvað annað hafi gengið á á þessum sama tíma. Sumir tala þannig að ekki sé ástæða til að ráðast í frekari rannsókn á einkavæðingu bankanna nema einhver ný gögn komi fram eins og í tilfelli Hauck & Aufhäuser bankans, vilja sem sagt bara sitja og bíða eftir að eitthvað dúkki upp. Það sem við sjáum hins vegar í þessu máli er að eftirlitsstofnanir fengu á sínum tíma í hendurnar gögn og ábendingar sem kölluðu á rannsókn, reikningar þessara félaga stemmdu einfaldlega ekki, en ekki var ráðist í fullnægjandi rannsókn. Þeir sem tala þannig að ekki sé ástæða til frekari rannsókna nema ný gögn komi fram hljóta að velta því fyrir sér hvort ekki sé rík ástæða til að ráðast í ítarlega rannsókn á allri einkavæðingu bankanna árið 2003.

Íslenskt samfélag hefur orðið gegnsýrðara af grunsemdum og tortryggni á síðustu árum þegar kemur að viðskiptalífinu og þessi tíðindi sýna að eina leiðin til að eyða þeirri tortryggni sé að sýna vönduð vinnubrögð, ráðast í gagngera rannsókn á söluferlinu öllu eins og Alþingi samþykkti árið 2012 þannig að hægt sé að horfa fram á veginn, draga lærdóm af ferlinu áður en ráðist verður í aðra einkavæðingu á hlut ríkisins í bönkunum. Hæstv. ráðherra hefur boðað sölu á hlut ríkisins í bönkunum en hann hefur líka sagt, (Forseti hringir.) frú forseti, að mikilvægt sé að taka sér þann tíma sem þarf. Er ekki ástæða til að ljúka rannsókn á þessu ferli þannig að við fáum allt fram um þetta mál sem hefur hvílt eins og mara á þjóðinni?