146. löggjafarþing — 51. fundur,  30. mars 2017.

frekari rannsókn á einkavæðingu ríkisbankanna.

[10:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrt svar. Ég treysti því þá að hann sem bæði fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar muni beita sér fyrir því að Alþingi ljúki rannsókn á öllu söluferli bankanna. Þetta er mjög mikilvæg yfirlýsing sem hæstv. ráðherra hefur gefið í þingsal í dag.

Ég vil nota tækifærið í seinni spurningu og spyrja: Telur hann sömuleiðis ástæðu til að bíða með að ráðast í frekari sölu á hlut ríkisins í bönkunum þar til slíkri rannsókn hefur verið lokið? Telur hann ekki jafnframt ástæðu til að kanna til hlítar það ferli sem stendur núna yfir hvað varðar sölu á Arion banka, þó að ríkið sé þar ekki seljandi hvað varðar eignarhald, þannig að við getum horft til þess að byggja upp heilbrigt fjármálakerfi, horfa fram á veginn og tryggja að almennt gagnsæi ríki í kringum (Forseti hringir.) þessar mikilvægu stofnanir fyrir okkur öll?